Markmið og skuldbindingar

Ísland hefur undirgengist alþjóðlegar skuldbindingar í loftslagsmálum. Sameiginleg markmið með ESB og Noregi snúa að 40% samdrætti í losun árið 2030, miðað við árið 1990. Þá hefur núverandi ríkisstjórn sett landinu sjálfstætt markmið um 55% samdrátt í losun á beinni ábyrgð Íslands fyrir 2030, miðað við árið 2005. Í því skyni er ætlunin að hraða orkuskiptum á öllum sviðum með það að markmið að Ísland nái kolefnishlutleysi og fullum orkuskiptum eigi síðar en árið 2040 og verði þá óháð jarðefnaeldsneyti fyrst ríkja.

Starfshópur fjármála- og efnahagsráðherra um græn skref í sjávarútvegi skilaði skýrslu í júní 2021 og leggur til a.m.k. 50% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda vegna fiskiskipa sem kaupa eldnseyti á Íslandi til ársins 2030, miðað við árið 2005. Sérstaklega er horft til minni báta og stefnt að því að í flota smábáta keyri a.m.k. 10% nýrra báta á rafmagni að hluta eða öllu leyti frá árinu 2026. Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar er sérstaklega vikið að þessari skýrslu og kveðið á um að tillögum starfshópsins verði fylgt.

Í skýrslu norska ráðgjafafyrirtækisins DNV, sem unnin var fyrir Samorku, Umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Faxaflóahafnir og kom út 8. desember 2021, kemur fram að ef Ísland hyggist ná markmiðum sínum um að vera óháð jarðefnaeldsneyti þurfi 10% orku í siglingum að verða endurnýjanleg fyrir árið 2030. Þar er raunar miðað við olíuleysi árið 2050, en í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar er stefnt að því að það náist áratug fyrr, 2040. Það er því ljóst að endurnýjanleg orka í siglingum verður enn meiri en þau 10% sem miðað er við ef viðmiðunarárið 2050 er notað. Í skýrslunni er lögð áhersla á mikilvægi þess að koma á legg tilrauna- og þróunarverkefnum, með ríkum stuðningi og hvötum, til að stuðla að orkuskiptum í hafi. Aukið fjármagn sé lykilinn ef nást eigi árangur á nægjanlegum hraða

Grænafl ehf.

Aðalgötu 34
580 Siglufirði

Hafa samband

695 0860
graenafl@graenafl.is